Lögmaður Samherja hefur lagt fram kæru fyrir siðanefnd Ríkisútvarpsins á hendur ellefu nafngreindum frétta- og dagskrárgerðarmönnum vegna þátttöku þeirra í þjóðfélagsumræðu um málefni Samherja á samfélagsmiðlum.

Þetta kemur fram á vef Samherja , en fyrirtækið segir kæruna byggja á eftirfarandi klásúlu í siðareglum Rúkisútvarpsins:

„Starfsfólk, sem sinnir umfjöllun um fréttir, fréttatengt efni og dagskrárgerð tekur ekki opinberlega afstöðu í umræðu um pólitísk málefni eða umdeild mál í þjóðfélagsumræðunni, þ. á m. á samfélagsmiðlum.“

Samherji segir að allir starfsmennirnir 11 sinni umfjöllun um fréttir, fréttatengt efni og dagskrárgerð hjá stofnuninni, en í færslunum sem fjallað er um í kærunni hafi þeir tekið afstöðu í umræðum um málefni fyrirtækisins.

Er þar einkum um að ræða mál vegna ásakana sem settar voru fram vegna starfseminnar í Namibíu og hið svokallaða Seðlabankamál en einnig ýmis önnur mál sem tengjast Samherja með beinum og óbeinum hætti. Má þar nefna eignarhald fyrirtækja í sjávarútvegi og eignarhald á hlutabréfum í Eimskip.

Telur fyrirtækið ljóst að í umræðunum hafi starfsmennirnir gerst brotlegir við siðareglurnar, en því til viðbótar telur fyrirtækið að um samantekin ráð starfsmannanna sé að ræða því færslurnar hafi verið birtar því sem næst samtímis á samfélagsmiðlum þeirra.

Að mati Samherja gerir það brotin enn alvarlegri en jafnframt er í kærunni krafist þess að horft verði sérstaklega til þess að sumir fréttamannanna brjóti siðareglurnar ítrekað.

„Þarna er um margítrekuð brot að ræða hjá sumum þeirra einstaklinga sem eiga í hlut. Þá virðist hópur manna, sem starfa við fréttir og dagskrárgerð, hafa haft samantekin ráð um að skaða orðspor Samherja. Af þessu er augljóst á Samherji á engan möguleika á því að fá hlutlausa umfjöllun hjá Ríkisútvarpinu,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.