Norðurál og Samherji hafa gengið frá viljayfirlýsingu um að Samherji kaupi eignir Norðuráls í Helguvík að því er fullyrt í Fréttablaðinu í dag . Samherji mun hafa áhuga á að reisa laxeldi á landi á svæðinu. Félagið kannar nú hvort hægt sé að nýta þær byggingar sem Norðurál reisti undir slíka starfsemi og er talið að niðurstaða verði komin í þá athugun fyrir árslok.

Norðurál sóttist nýlega eftir leyfi því að stunda aðra starfsemi en að reka álver á lóðinni í Helguvík. Framkvæmdir hófust árið 2008 við álver Norðuráls í Helguvík en aldrei tókst að semja um næga raforku til að knýja álverið. Lóðin er alls um 100 hektarar og byggingar Norðuráls telja um 23 þúsund fermetra.

Fréttablaðið bendir á að Samherji stundi þegar fiskeldi við Grindavík og á Vatnsleysuströnd og reki bleikjuvinnslu í Sandgerði.