*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 20. apríl 2021 13:36

Samherji kaupir 40% í Eskøy

Icefresh GmbH, dótturfélag Samherja, hefur fest kaup á 40% hlut í útgerðinni Eskøy, sem er í eigu Hrafns og Helga Sigvaldasona.

Ritstjórn
MS Valdi­mar H, fiskiskip Eskøy. Mynd tekin af heimasíðu Eskøy.

Icefresh GmbH, dótturfélag Samherja í Þýskalandi, hefur lokið kaupum á 40% hlut í Íslendingaútgerðinni Eskøy AS, sem er staðsett í Honningsvåg í Norður-Noregi og gerir út tvö fiskiskip, MS Tryge B and MS Valdimar H. Mbl.is greinir frá.

Eskøy var stofnað af íslensku bræðrunum Hrafni og Helga Sigvaldasynum. Félagið hefur síðastliðin ár verið í samstarfi við Icefresh sem rekur vinnslu í Gross-Gerau sem er rétt suður af Frankfurt am Main í Þýskalandi.

„Með stuðningi Icefresh GmbH höfum við tækifæri til að styrkja stöðu okkar og stækka fyrirtækið enn frekar til framtíðar,“ segir Hrafn í tilkynningu á vef Icefresh. Sigmundur Andrésson, framkvæmdastjóri Icefresh, kveðst sömuleiðis ánægður með að efla samstarf fyrirtækjanna og styrkjar við frekari vöxt Eskøy.

Reglugerðir í Noregi kveða um að erlent eignarhald í útgerðum megi ekki vera umfram 40% en bræðurnir hafa til þessa farið með 60% eignarhlut í félaginu og Eskøy farið með 40% af eigin hlutum, sem nú verða í eigu Samherja í gegnum þýska dótturfélagið. 

Rekstrartekjur Eskøy nam 106,2 milljónum norskra króna, eða um 1,6 milljarða króna, árið 2019 samkvæmt norsku gagnaveitunni Proff. Hagnaður félagsins nam 2,5 milljónum norskra króna, eða um 39 milljónir íslenskra króna, og eiginfjárhlutfallið var um 11,5% í lok ársins 2019. 

Stikkorð: Samherji Eskøy Icefresh GmbH