Samherji hefur gengið frá samningi um kaup á 50% hlut í Aquanor Marketing, Inc. í Boston, sem flytur inn, markaðssetur og selur ferskar sjávarafurðir í hæsta gæðaflokki í Bandaríkjunum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. Þar segir:

Aquanor hefur verið einn helsti viðskiptavinur Samherja í meira en áratug. Umtalsverður hluti af innflutningi Aquanor á þessu tímabili hefur komið frá Samherja og hafa afurðirnar verið seldar til úrvals smásölukeðja, veitingahúsakeðja og heildsala í Bandaríkjunum. Aquanor, sem er þekkt vestanhafs fyrir að selja afurðir í hæsta gæðaflokki undir slagorðinu Simply the Finest, hefur beint markaðsstarfi sínu einkum að ferskum sjávarafurðum í Norður-Atlantshafstegundum og má þar nefna bleikju, þorsk, ýsu, lax og ostrur sem seldar hafa verið undir vörumerkjunum Aquanor og WiAnno.

Samherji og Aquanor höfðu átt í viðræðum um nokkurra mánaða skeið áður en gengið var frá samkomulagi um fjárfestingu í byrjun október. Eric Kaiser verður áfram forstjóri Aquanor. Í kjölfar fjárfestingarinnar mun Orri Gústafsson ganga til liðs við Aquanor frá Samherja, flytjast búferlum til Boston og verður framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá félaginu.

Auk þeirrar samþættingar sem verður á núverandi samstarfi fyrirtækjanna á sviði sölu- og markaðssetningar mun fjárfesting Samherja leiða til þess að Aquanor mun í auknum mæli beina sjónum sínum að markaði fyrir frosinn þorsk og bleikju í Bandaríkjunum. Framleiðsla á bleikju hefur aukist verulega á Íslandi á undanförnum árum og Samherji fiskeldi er nú stærsti einstaki bleikjuframleiðandi í heimi. Gert er ráð fyrir að framleiðsla á bleikju muni koma til með að aukast enn frekar á næstunni. Aquanor, sem er leiðandi í markaðssetningu á bleikju vestanhafs, mun nú koma til með að bjóða upp á ýmsar frosnar bleikjuafurðir til að mæta eftirspurn viðskiptavina sinna.

„Aquanor Marketing er vel rekið fjölskyldufyrirtæki og eigendur þess deila gildum okkar og framtíðarsýn. Þessi fjárfesting mun gera okkur kleift að halda áfram að vaxa í Bandaríkjunum. Um er að ræða mikilvægan markað fyrir okkur sem verður enn mikilvægari í framtíðinni vegna þeirra breytinga sem hafa orðið á eftirspurn í kjölfar heimsfaraldursins. Þrátt fyrir þessar erfiðu kringumstæður hlökkum við til áframhaldandi vaxtar og uppbyggingar Aquanor á þeim trausta grunni sem samstarf fyrirtækjanna hefur mótað,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, í tilkynningunni.

Eric_Kaiser,_Aquanor_Marketing, segir þar:

„Metnaður Samherja fyrir gæðum er fullkomlega í samræmi við okkar áherslur um að afhenda einfaldlega bestu sjávarafurðirnar til viðskiptavina okkar hér í Bandaríkjunum. Við höfum unnið með Samherja í yfir tíu ár og á þeim tíma höfum við hrifist af því hvernig þeir reka sitt fyrirtæki. Þorsteinn Már hefur ásamt öllu stjórnendateyminu tekist að skapa starfsanda sem stuðlar að góðum félagsskap, virðingu og alúð á öllum stigum í rekstri fyrirtækisins. Við gætum ekki hugsað okkur betri samstarfsaðila. Við erum spenntir fyrir þeim tækifærum og vexti sem þetta samstarf mun án nokkurs vafa hafa í för með sér.“