Gengið hefur verið frá kaupum dótturfélags Samherja, Ice Tech ehf., á um fimmtungshlut í Völku ehf. af Vortindi ehf. Með þessum viðskiptum er Samherji orðinn einn af stærri hluthöfum Völku ásamt Helga Hjálmarssyni, stofnanda og framkvæmdastjóra Völku, Vogabakka ehf., Vindhamri ehf. og Fossum ehf. Samherij hefur lengi verið í samstarfi við Völku um tækjabúnað í landvinnslur félagsins hér á landi.

„Það er afar ánægjulegt að fá sterkan bakhjarl á borð við Samherja inn í eigendahóp Völku. Við höfum unnið farsællega saman að tækniþróun í landvinnslu Útgerðarfélags Akureyrar undanfarin ár og gerðum nýverið stóran samning um aðkomu að búnaði í nýrri landvinnslu Samherja á Dalvík,” segir Helgi Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Völku við tilefnið.

„Við erum spennt að taka þátt í frekari þróun innan Völku. Samherji er þátttakandi í þessari grein í gegnum önnur félög eins og til dæmis Slippinn á Akureyri og Kælismiðjuna Frost.  Lausnir Völku hafa reynst mjög vel í sjávarútvegi hér á landi. Ég hef trú á að Valka geti gert sig enn meira gildandi á hinum alþjóðlega markaði og er fjárfestingin hugsuð til að styðja frekar við bakið á útflutningi á íslensku hug- og verkviti og það hyggjumst við gera áfram innan vébanda Ice Tech.” segir Eiríkur S. Jóhannsson, stjórnarformaður Samherja og Ice Tech.