Vegna mikillar aukningar í aflaheimildum á loðnu hefur Samherji hf. gengið frá kaupum á skipinu Högaberg FD-1210, frá E.M. Shipping í Færeyjum. Í kaupsamningi um skipið er ákvæði um endursölurétt innan 3ja mánaða frá undirritun. Högabergið, sem fær einkennisstafina EA-12, ber um 2.200 tonn af uppsjávarfiski og er útbúið bæði á nóta- og flottrollsveiðar. Skipið fór frá Færeyjum í nótt og er væntanlegt til Eskifjarðar í fyrramálið, þar sem lokið verður við íslenska skráningu skipsins.

Vonast er til að takist að ljúka skráningunni á morgun svo að skipið geti haldið á veiðar án tafar en Högabergið kemur aðallega til með að afla hráefnis fyrir fiskimjöls- og lýsisverksmiðju Samherja í Grindavík.