Stjórn Samherja hefur farið fram á það við bankaráð Seðlabanka Íslands að ráðið hlutist til um að fram fari athugun á stjórnsýslu bankans, bankastjórnar og annarra starfsmanna, að því er snertir gjaldeyriseftirlit. Kemur þetta fram í bréfi til bankaráðsins sem birt er á vefsíðu Samherja .

Vill stjórn Samherja að athugunin taki á húsleit, rannsókn, samskiptum, kærum og fjölmiðlaumfjöllun að hálfu Seðlabankans um málefni Samherja.

Í bréfinu er vísað til orðalags héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti, en þar segir að lögregla geti stuðst við gögn sem hún hafi undir höndum „þó þeirra kunni að hafa verið aflað án þess að fylgt hafi verið ákvæðum laga um öflun sönnunargagna í opinberum málum.“ Telur stjórn Samherja að þetta orðalag gefi vísbendingu um að mögulega hafi ekki verið réttilega staðið að rannsókn málsins í upphafi.

Í bréfinu er einnig fjallað um það sem kallað er „óviðeigandi viðbrögð og ummæli seðlabankastjóra“ í kjölfar niðurfellingar sérstaks saksóknara á málinu gegn Samherja. Hafi sérstakur saksóknari fellt málið niður vegna þess að ekkert væri að finna í gögnum málsins sem benti til þess að refsiverður verknaður hefði verið framinn og því útilokað að til höfðunar sakamáls gæti komið. Þrátt fyrir þetta virtist sem seðlabankastjóri lýsi yfir sekt málsaðila í Samherjamálinu opinberlega, m.a. í Morgunblaðinu með því að segja þá „sleppa vegna lagaklúðurs“.