*

fimmtudagur, 28. október 2021
Innlent 10. mars 2020 21:29

Samherji boðar yfirtökutilboð í Eimskip

Samherji hefur aukið hlut sinn í Eimskip yfir 30% og mun gera hluthöfum yfirtökutilboð á næstu fjórum vikum.

Ingvar Haraldsson
Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips.
Haraldur Guðjónsson

Samherji Holding hefur aukið hlut sinn í Eimskip um 3,05% í 30,11%. Við það virkjast yfirtökuskylda á Samherja á Eimskip. Samherji hyggst gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð á næstu fjórum vikum. Markmiðið er þó ekki að afskrá félagið samkvæmt tilkynningu frá félaginu. 

„Tilgangur Samherja með þessum auknu hlutafjárkaupum er fyrst og fremst að sýna þá trú sem Samherji hefur á rekstri Eimskips, þeim árangri sem náðst hefur að undanförnu og á eftir að koma betur í ljós á næstu misserum," segir í tilkynningu sem Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóra Samherja, er skrifaður fyrir.

„Eimskip er allt að einu í meirihlutaeigu íslenskra lífeyrissjóða sem saman eiga rúmlega helming hlutafjár. Er það skilningur minn að stjórn Eimskips og stjórnendur hafi verið einhuga um þær miklu breytingar sem gerðar hafa verið á rekstrinum. Samherji telur Eimskip vel til þess fallið að vera áfram skráð í kauphöll og vonar að sem flestir hluthafar, stórir og smáir, sjái hag sínum best borgið með því að styðja áfram við þá uppbyggingu og fylgi félaginu um ókomin ár," segir enn fremur í tilkynningunni.

Samherji varð stærstur 2018

Samherji varð stærsti hluthafi Eimskips í júlí 2018 þegar það keypti fjórðungshlut The Yucaipa Company á ríflega 11 milljarða króna. Kaupin voru gerð á genginu 220 krónur á hlut en gengi bréfa í Eimskip stóðu í 135 krónum á hlut við lokun markaða í dag. Hlutabréf í Eimskip hafa lækkað um 29% frá áramótum.

Markaðsvirði Eimskips var 24,5 milljarðar króna við lokun markaða í dag og hlutur Samherja í félaginu er því um 7,35 milljarða króna virði en hlutur annara hluthafa ríflega 17 milljarða króna virði. Stærstu hluthafar Eimskips utan Samherja eru nær alfarið íslenskir lífeyrissjóðir eins og fram kemur í tilkynningunni frá Samherja.

Baldvin Þorsteinsson, sonur Þorsteins Más Baldvinssonar, er stjórnarformaður Eimskips. Þá réð Eimskip Vilhelm Má Þorsteinsson, frænda feðganna, sem forstjóra í byrjun síðasta árs. 

Hagnaður dregist saman síðustu ár

Rekstur Eimskips hefur verið þungur undanfarin ár. Hagnaður félagsins hefur dregist saman á hverju ári undanfarin þrjú ár og nam 139 milljónum í fyrra miðað við milljarðs króna hagnað árið 2018 og yfir tveggja milljarða króna hagnað árin tvö þar á undan. Á síðasta ári setti samdráttur í innflutningi til landsins og loðnubrestur svip sinn á reksturinn. Þá hefur félagið lýst yfir áhyggjum af áhrifum kórónuveirunnar á flutninga milli landa. Félagið tilkynnti um hagræðingaraðgerðir og sameiningu skrifstofa þann 18. febrúar

Stikkorð: Eimskip Samherji