Helstu bakhjarlar að N-Ice air, fýsileikakönnun um áætlunarflug frá Akureyrarflugvelli til Evrópu, eru Samherji, Höldur og Norlandair auk þess sem það nýtur stuðning fleiri fyrirtækja og hagsmunaaðila á Norðurlandi að því er bæði Morgunblaðið og Fréttablaðið segja frá.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um fóru nærri 40% fleiri um Akureyrarflugvöll á síðasta ári, miðað við fyrra ár, meðal annars vegna flugs ferðamanna sem verið hefur undanfarið beint á flugvöllinn.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson framkvæmdastjóri Circle Air, er í forsvari fyrir hóp fjárfesta að verkefninu, en það hefur fengið 3,5 milljóna króna styrk frá Sóknaráætlun Norðurlands eystra. Hann segir aðstandandendur mjög meðvitaða um nauðsyn traustrar fjármögnunar á bakvið svona verkefni.

„Ef af verkefninu verður þá er ljóst að við munum tryggja fjármagn til þess að reka félagið svo lengi sem á þetta skal láta reyna, eða 24-36 mánuði, þannig að flugfarþegar geta óhræddir bókað flug fram í tímann, ef af verður,“ segir Þorvaldur.

Hann telur íbúa Norður- og Austurlands langþreytta á að keyra klukkustundunum saman til og frá Keflavík, og vísar í að hjá þeim um 50 þúsund manns sem á upptökusvæði flugvallarins búa sé meiri ferðavilji en nú sé þjónað.

„Færeyingar eru 50 þúsund og með fjórar til ellefu millilandaferðir á dag,“ segir Þorvaldur, en skortur á uppbyggingu á flughlöðum og öðrum innviðum vallarins segir hann helst standa flugi fyrir þrifum.

„Við teljum að það sé kominn tími til að láta reyna á áætlunarflug til Evrópu frá Akureyri. Það hefur tekist mjög vel með leiguflug til Akureyrar frá Bretlandi og Hollandi og svo hefur beint leiguflug frá Akureyri og út í heim aukist verulega.“