*

fimmtudagur, 6. maí 2021
Innlent 10. febrúar 2020 13:04

Samherji meðal bakhjarla Akureyrarflugs

Fjöldi norðlenskra fyrirtækja huga að áætlunarflugi til Evrópu frá Akureyrarflugvelli. Myndu tryggja fjármagn til allt að 36 mánaða.

Ritstjórn
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson er framkvæmdastjóri Circle Air og einn forsvarsmanna N-Ice air.
Haraldur Guðjónsson

Helstu bakhjarlar að N-Ice air, fýsileikakönnun um áætlunarflug frá Akureyrarflugvelli til Evrópu, eru Samherji, Höldur og Norlandair auk þess sem það nýtur stuðning fleiri fyrirtækja og hagsmunaaðila á Norðurlandi að því er bæði Morgunblaðið og Fréttablaðið segja frá.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um fóru nærri 40% fleiri um Akureyrarflugvöll á síðasta ári, miðað við fyrra ár, meðal annars vegna flugs ferðamanna sem verið hefur undanfarið beint á flugvöllinn.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson framkvæmdastjóri Circle Air, er í forsvari fyrir hóp fjárfesta að verkefninu, en það hefur fengið 3,5 milljóna króna styrk frá Sóknaráætlun Norðurlands eystra. Hann segir aðstandandendur mjög meðvitaða um nauðsyn traustrar fjármögnunar á bakvið svona verkefni.

„Ef af verkefninu verður þá er ljóst að við munum tryggja fjármagn til þess að reka félagið svo lengi sem á þetta skal láta reyna, eða 24-36 mánuði, þannig að flugfarþegar geta óhræddir bókað flug fram í tímann, ef af verður,“ segir Þorvaldur.

Hann telur íbúa Norður- og Austurlands langþreytta á að keyra klukkustundunum saman til og frá Keflavík, og vísar í að hjá þeim um 50 þúsund manns sem á upptökusvæði flugvallarins búa sé meiri ferðavilji en nú sé þjónað.

„Færeyingar eru 50 þúsund og með fjórar til ellefu millilandaferðir á dag,“ segir Þorvaldur, en skortur á uppbyggingu á flughlöðum og öðrum innviðum vallarins segir hann helst standa flugi fyrir þrifum.

„Við teljum að það sé kominn tími til að láta reyna á áætlunarflug til Evrópu frá Akureyri. Það hefur tekist mjög vel með leiguflug til Akureyrar frá Bretlandi og Hollandi og svo hefur beint leiguflug frá Akureyri og út í heim aukist verulega.“