Viðskiptablaðið verðmetur útgerðarfyrirtækið Samherja á um það bil 30 til 40 milljarða króna, í ítarlegri úttekt um umsvif fyrirtækisins sem birtist í blaðinu í dag.

Í verðmatinu er miðað við EBITDA-margfaldara uppá 5 til 7 sem verður að teljast varfærnislegt. Það styður þetta mat að íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki, með EBITDA upp á ríflega 1,1 milljarð króna, var metið á 4,7 milljarð króna á síðasta ári. Það mat á Samherja sem hér hefur verið sett fram er ekki fjarri því.

Miðað við það eiga frændurnir Kristján Vilhelmsson og Þorsteinn Már Baldvinsson sem eru stærstu eigendur útgerðarinnar um 10 til 15 milljarða hvor og er þá ekki tekið tillit til annarra eigna þeirra.

Í bókinni Ríkir Íslendingar, sem kom út fyrir jólin 2001, var talið að þeir Þorsteinn og Kristján ættu hvor um sig 2,5 milljarða króna. Miðað við þetta má ætla að auður þeirra hafi ríflega þrefaldast. Þess má geta að markaðsverðmæti Samherja var talið vera tæpir 15 milljarðar króna í lok árs 1999.

Kristján Vilhelmsson á 32,35% hlut í Samherja og Þorsteinn Már Baldvinsson á 31,62% hlut.

Fjárfestingarfélagið Fjörður ehf. er með 13,07% og Bliki  ehf. á 10,9%. Fjárfestingarfélagið Fjörður var notað til að taka Samherja af markaði og eiga þeir Kristján og Þorsteinn 50% hlut hvor í félaginu. Félagið er með sterka eiginfjárstöðu eða uppá 1,5 milljarð króna og nam hagnaður ársins 2006 tæplega milljarði króna.

Bliki er í eigu þeirra frænda og helstu stjórnenda félagsins. 9,51% hlutafjár Samherja er í eigu utanaðkomandi aðila og þar af er lang stærsti hluturinn í eigu Tryggingamiðstöðvarinnar eða 9,1%. Samherji sjálfur og fjölskyldutengdir aðilar eiga síðan 2,55%.