Samherji hf. réð á dögunum Jón Rafn Ragnarsson til starfa sem framkvæmdastjóra Fjármála- og upplýsingasviðs.

Jón er fæddur árið 1979 í Reykjavík. Hann flutti norður ungur að árum, fyrst til Húsavíkur, en síðar til Akureyrar og er stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri frá árinu 1999.

Jón útskrifaðist síðan sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands árið 2003 og varð löggiltur endurskoðandi árið 2006. Jón Rafn hefur starfað hjá Deloitte ehf. síðustu 15 ár og varð meðeigandi frá árinu 2008. Hann hefur samhliða sínum störfum hjá Deloitte verið virkur í félagsstörfum Félags löggiltra endurskoðenda ásamt kennslu í endurskoðun og reikningshaldi hjá Háskólanum í Reykjavík frá árinu 2006.

Maki Jóns Rafns er Ellen María Sveinbjörnsdóttir, M.sc. viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Ellen María er fædd í Arendal í Noregi árið 1975 og eiga þau saman tvö ung börn, en jafnframt á Jón Rafn tvö börn frá fyrra sambandi. Jón Rafn kemur til með að hefja störf fljótlega og fjölskyldan mun flytjast til Akureyrar í sumar.