Uppgangur Samherja hefur verið mikill í íslensku viðskiptalífi en segja má að félagið hafi orðið að táknmynd kvótakerfisins á Íslandi, bæði hjá þeim sem eru andsnúnir kerfinu og hjá þeim sem styðja það. Áhrif stjórnenda félagsins í íslensku viðskiptalífi eru óumdeilanleg en félagið sækir nú stíft fram á erlendum mörkuðum. Í annarri grein greinaflokksins Auður og völd er fjallað um bræðrasynina Þorstein Má Baldvinsson og Kristján Vilhelmsson hjá Samherja.

Þrátt fyrir að íslenska þjóðfélagið sé í grunninn sjómannaþjóðfélag og hagkerfi landsins hafi lengst af mótast af því þá hefur athyglin ekki beinst að sjávarútveginum undanfarin ár. Sumir fagna því – segja að vandamálaumræða sjávarútvegsins hafi verið leiðigjörn og endurtekningarsöm og því tímabært að gefa henni frí. Þetta hefur hins vegar gert það að verkum að styrkur og uppgangur stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins fer meira og minna framhjá almenningi.

Þegar Þorsteinn Már Baldvinsson tók við stjórnarformennsku hjá Glitni fyrir skömmu töldu flestir víst að það gerði hann eingöngu af greiðasemi við stærstu hluthafa og að hann ætti þar litla sem enga hagsmuni. Staðreyndin er sú að fjárhagslegur styrkur Samherja er gríðarlegur og umfang starfseminnar er svo viðamikið að fá íslensk fyrirtæki komast til samanjafnaðar. Eigi að síður eru Samherja-frændur, eins og þeir eru gjarnan kallaðir, ekki ofarlega á lista þegar spurt er um valdamestu menn íslensks viðskiptalífs. Viðskiptablaðið hefur gert slíka könnun undanfarin ár þar sem úrtakið hefur náð til rúmlega 500 stjórnenda í íslenskum fyrirtækjum. Þorsteinn Már hefur fengið nokkrar tilnefningar en þó aldrei verið meðal efstu manna. Á sama tíma hafa menn eins og Hannes Smárason flogið upp listann þótt ólíklegt sé að hann verði ofarlega næst þegar könnunin verður gerð.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu á morgun. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum frá kl. 21:00 í kvöld. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .