*

miðvikudagur, 28. október 2020
Innlent 25. september 2020 09:26

Samherji segist hafa borgað markaðsverð

Samanburður fyrirtækisins á leiguverði kvóta í Namibíu sagður staðfesta að félög tengd Samherja hafi greitt markaðsverð.

Ritstjórn
Namibíumenn veifa fána landsins sem hlaut sjálfstæði frá Suður Afríku árið 1990, en Suður Afríka tók yfir stjórn landsins frá Þjóðverjum eftir fyrri heimsstyrjöldina í umboði Þjóðabandalagsins, forvera SÞ.

Útgerðarfélagið Samherji segir að félagið hafi látið gera sérstaka athugun á verðlagningu á þeim kvóta sem félög tengd því hafi leigt meðan þau ráku starfsemi í Namibíu sem staðfesti að félögin hafi greitt markaðsverð fyrir kvótann í samningum við tvö félög tengd stjórnvöldum, Fischor og Namgomar.

Athugunin nú hafi falist í samanburði á verði, annars vegar við sex namibísku félög sem voru handhafar aflaheimilda í landinu, og hins vegar á verði í sambærilegum samningum annarra útgerðarfyrirtækja sem störfuðu í landinu við handhafa aflaheimilda.

Segir félagið að í miklum meirihluta samninganna hafi verð Samherja verið hærra en þessara aðila, sem og í 38 af 39 tilvikum sem Samherji samdi við félögin tvö tengd stjórnvöldum hafi verðið verið jafnhátt eða hærra en það verð sem greitt var til handhafanna sex.

Taprekstur ekki arðrán

Ástæða athugunarinnar nú er sögð vera fullyrðingar um að verð sem greitt var fyrir leigu á aflaheimildunum samkvæmt samningum við namibíska ríkisfyrirtækið Fishcor og Namgomar, sem hafi fengið úthlutað aflaheimildum á grundvelli samnings um veiðar milli Angóla og Namibíu, hafi verið langt undir markaðsverði.

Eins og fjallað hefur verið ítarlega um í fréttum hafa komið fram ásakanir um að starfsemi útgerðarfélagsins í landinu hafi falið í sér mútur til að tryggja sér aflaheimildir sem og skattaleg undanskot sem fjallað var um í þættinum Kveik á RÚV.

Samherji segir að félög sér tengd í Namibíu hafi aldrei fengið úthlutað kvóta í landinu heldur hafi þau leigt kvóta sem heimamenn hafi fengið úthlutað, sem og af ríkisfyrirtækinu Namgomar. Jafnframt segir félagið að starfsemin í landinu hafi verið rekin með tapi, en ekki ríkulegum hagnaði og því ekki verið um að ræða arðrán af þróunarríki eins og það er orðað á vef fyrirtækisins.

Af vef Samherja:

Samherji hafnar því að aflaheimildir hafi verið leigðar af þessum aðilum á verði sem hafi verið lægra en markaðsverð, heldur hafi verðið sem var greitt samkvæmt samningum við Fishcor og Namgomar ávallt verið jafnhátt eða hærra en það verð sem félög tengd Samherja greiddu öðrum handhöfum aflaheimilda í Namibíu.

Til að komast að því hvað hafi verið rétt markaðsverð í viðskiptum með aflaheimildir, þau ár sem félög tengd Samherja voru með starfsemi í Namibíu, var farið yfir samninga Samherja við sex namibísk félög sem voru handhafar aflaheimilda og höfðu engin innbyrðis tengsl. Hvert og eitt þessara félaga starfaði á frjálsum markaði og hafði aðeins arðsemissjónarmið að leiðarljósi við leigu aflaheimilda.

Verð í þessum samningum var síðan borið saman við það verð sem Samherji greiddi í samningum við Fishcor og Namgomar. Alls var ráðist í samanburð í þrjátíu og níu tilvikum. Í öllum tilvikum nema einu var það verð sem Samherji greiddi fyrir aflaheimildir samkvæmt samningum við Fishcor og Namgomar jafnhátt eða hærra en það verð sem greitt var samkvæmt samningum við önnur fyrirtæki.

Þá var einnig ráðist í samanburð á verði í sambærilegum samningum sem önnur útgerðarfyrirtæki, innlend sem erlend, gerðu við handhafa aflaheimilda í Namibíu. Þetta var gert til að ganga úr skugga um að að það verð, sem félög tengd Samherja greiddu, samkvæmt samningum við Fishcor og Namgomar hefði ekki verið óeðlilega lágt og einnig til að eyða grunsemdum um að þeir samningar sem stuðst var við hefðu sérstaklega verið valdir til að tryggja hagfelldan samanburð. Í miklum meirihluta þeirra samninga, sem skoðaðir voru í þessari síðari athugun, var það verð sem greitt var samkvæmt samningum við Fishcor og Namgomar jafnhátt eða hærra en það verð sem umrædd útvegsfyrirtæki greiddu fyrir sínar aflaheimildir.

Þrátt fyrir að einstaka starfsmenn hafi ekki gætt þeirra vinnubragða og starfsaðferða sem Samherji kappkostar í allri starfsemi sinni, er ljóst að félagið ber ábyrgð á eftirfylgni, aga og eftirliti og ber að grípa inn í með afgerandi hætti þegar ekki er gætt þeirrar árvekni sem krafa er gerð um. Ljóst virðist að við leigu á aflaheimildum í Namibíu hefur í einhverjum tilvikum skort á slíkt eftirlit og inngrip. Það breytir þó ekki meginniðurstöðu þessarar athugunar sem er að félög tengd Samherja hafi greitt markaðsverð fyrir þann kvóta sem þau leigðu.

Samherji mun á næstunni halda áfram að leiðrétta rangfærslur og jafnframt greina frá verklagi og vinnubrögðum sem betur hefðu mátt fara.

Stikkorð: RÚV Samherji Kveikur Namibía kvóti arðrán