Útgerðarfyrirtækið Samherji hyggst selja allan sinn hlut, um 29%, í tilvonandi næst stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Noregs í komandi frumútboði félagsins í kauphöll Osló. Norsku félögin Nergård og Norsk Sjømat tilkynntu í dag að þau myndu sameina rekstur sinn sem um leið verður næst stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Noregs, miðað við magn kvóta á bolfisk.

Gert er ráð fyrir að útboðið, og því um leið sala Samherja, hefjist um miðjan þennan mánuð. Ekki er búið að ganga frá öllum nauðsynlegum leyfum til þess að útboðið geti farið í gegn.

Sjá einnig: Samherji hagnast um 9 milljarða

Norsk Sjømat verður skráð á markað þar sem um er að ræða móðurfélag sameinaða rekstursins. Í frumútboði Norsk Sjømat er stefnt að safna um 700-800 milljónum norskra króna, jafnvirði 10,5-12 milljarða íslenska króna. Ekki liggur fyrir hvert söluandvirði eignarhlutar Samherja verður.

Árið 2014 varð Samherji hluthafi í Nergård þegar það eignaðist 22% hlut. Þremur árum síðar eða árið 2017 jók Samherji hlutdeild sína í 39,9% og átti Norsk Sjømat hinn hluta rekstursins. Norsk lög heimila erlendum aðilum ekki að eiga meira en 40% í sjávarútvegsfyrirtækjum.

Sjá einnig: Á meðal 100 áhrifamestu í heiminum

Í kjölfar sameiningar Nergård og Norsk Sjømat myndi hlutur Samherja vera 29% og félög tengd Bjarte Tunold og Per Magne Grøndahl myndu eiga 71% hlut. Hins vegar hyggst Samherji selja allan sinn hlut í frumútboðinu á meðan hlutur fyrrnefndra hluthafa mun þynnast í um 54%, bæði vegna sölu í útboðinu og vegna útgáfu nýrra hluta.

Talið er að sameining Nergård og Norsk Sjømat tryggi félaginu talsverð samlegðaráhrif og verður félagið með rekstur í öllum hlutum verðmætakeðjunnar.