Samherji hyggst selja meira en fjórðung af eignarhlut sínum í Síldarvinnslunni (SVN) í útboði síðarnefnda félagsins sem fer fram 10.-12. maí næstkomandi. Samherji, sem er stærsti hluthafi SVN með 44,6% hlut, verður með 204 milljónir hluta til sölu, sem jafngildir um 11,2-11,8 milljarða króna miðað við útboðsverðið sem verður á bilinu 55-58 krónur.

Í útboðslýsingu segir að samstarf Samherja og Síldarvinnslunnar hafi verið með ýmsu móti í gegnum árin. Síldarvinnslan selur stóran hluta afurða sinni í gegnum Ice Fresh Seafood, sölufélag í eigu Samherja. Jafnframt er Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, stjórnarformaður Síldarvinnslunnar. Síldarvinnslan landar hluta af bolfiski veiddum af skipum félagsins til vinnslu hjá dótturfélögum Samherja hf. og dótturfélögin landa uppsjávarfiski sem skip þeirra veiða til vinnslu hjá Síldarvinnslunni.

Þorsteinn sagði í viðtali við Markaðinn fyrr í ár að skráning SVN í Kauphöllina væri tilraun til að „svara kalli tímans um dreifðara eignarhald í sjávarútvegi“.

Sjá einnig: Selja fyrir 25 milljarða í SVN

Aðrir hluthafar sem munu selja í útboðinu eru Kjálkanes, Eignarhaldsfélagið Snæfugl og Hraunlón. Kjálkanes, sem er næst stærsti hluthafi SVN með 34,2% hlut, mun líkt og Samherji selja allt að 204 milljónir hluta í útboðinu. Kjálkanes er í eigu sömu aðila og eiga útgerðarfélagið Gjögur, en Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Samherja er þar meðal hluthafa.

Eignarhaldsfélagið Snæfugl sem á um 5,3% hlut í SVN hyggst selja allt að 17 milljónir hluta að andvirði 935 milljóna króna, miðað við lægsta útboðsverð. Hraunlón ehf. verður með 10,2 milljónir hluta til sölu en miðað við lægsta útboðsverð mun Hraunlón fá um 561 milljón króna í sinn hlut.