Samherji og tengd félög hafa selt útgerðarfyrirtækið Kötlu Seafood Canarias á Kanaríeyjum og félög því tengt sem stundað hafa veiðar úti fyrir ströndum í Vestur-Afríku. Kaupandinn er Murmansk Trawl Fleet, eitt umsvifamesta útgerðarfyrirtæki Rússlands, og fleiri fyrirtæki. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, vildi ekki tjá sig um kaupverðið í viðskiptum og lítið um söluna í samtali við vb.is. Um er að ræða útgerð með fimm skipum, s.s. flutningaskip og þjónustuskip.

Þorsteinn Már sagði í samtali við vb.is í mars að forsvarsmenn Murmansk Trawl Fleet hafi átt frumkvæðið að viðræðum um kaupin. Á þeim tíma vildi hann hins vegar ekkert segja um það hvort fleiri fyrirtæki hafi viðrað áhuga á að kaupa Afríkuútgerðina.

Keyptu reksturinn á tólf milljarða

Samherji keypti útgerð Kötlu Seafood í Afríku fyrir tólf milljarða af Sjólaskipum í Hafnarfirði í maí árið 2007. Þetta var einhver umsvifamesta fjárfesting Samherja á sínum tíma.

Þorsteinn segir í samtali við vb.is söluna ekki hafa nein áhrif á rekstur Samherja.