Samherji hefur samið við Sjóvá um öll vátryggingaviðskipti fyrirtækisins og tengdra félaga á Íslandi til næstu þriggja ára. Samningurinn er gerður í framhaldi af flutningi trygginga Samherja og tengdra félaga til Sjóvár í ársbyrjun 2014.

Forstjóri Sjóvár, Hermann Björnsson, segir ánægjulegt að samstarfið á nýliðnu ári skili sér nú með samningi til lengri tíma. Samherji sé eitt umsvifamesta sjávarútvegsfyrirtæki landsins með fjölbreytta starfsemi sem krefjist sérhæfðrar tryggingaverndar.

Samstarf til þriggja ára tryggi bestu þjónustu af hendi Sjóvár, sem reki útibú á Akureyri þar sem Samherji er með höfuðstöðvar.