Samherji og Vodafone hafa gert með sér samning um fjarskiptaþjónustu. Um er að ræða heildarfjarskiptasamning, sem kveður á um fastlínu-, net- og gsm-þjónustu. Starfsmenn Samherja munu á næstunni skipta yfir í Vodafone RED PRO þjónustuleið Vodafone, sem felur í sér fjarskipta- og gagnaflutningsþjónustu.

Samherji er í hópi umsvifamestu sjávarútvegsfyrirtækja landsins með höfuðstöðvar á Akureyri. Hjá fyrirtækinu starfa rúmlega 700 manns hér á landi við útgerð, fiskvinnslu og fiskeldi. Samningurinn er til þriggja ára og hefur þegar tekið gildi.

„Samherji byggir starfsemi sína á þátttöku í flestum greinum sjávarútvegsins, allt frá veiðum úti á miðunum og vinnslu í landi, til sölu á mörkuðum ytra. Öryggi, aðgengi og hröð fjarskiptaþjónusta gegna þar mikilvægu hlutverki. Það er því ánægjulegt að fjarskiptasamningur við Vodafone sé í höfn,“ segir Finnbogi Reynisson, yfirmaður upplýsingatæknimála hjá Samherja.