Íslenska útgerðarfyrirtækið Samherji segir ekkert benda til þess að 6 milljarða króna sekt sem lögð var á norska bankann DNB sé vegna viðskiptasambands hans við Samherja.

Fyrirtækið segist hafa þegar sent ósk til norska dagblaðsins Dagens Næringsliv um að leiðrétta að Samherji sé bendlaður við málið í frétt blaðsins, því sektarboðið hafi komið í kjölfar reglubundins eftirlits hjá bankanum, en ekki vegna tengsla við viðskipti Samherja við bankann.

Rök útgerðarfyrirtækisins fyrir því eru að hvergi sé minnst á Samherja í tilkynningu bankans né hafi Samherji aðrar upplýsingar um þessa mögulega sekt annað en það sem sagt hefur verið frá í fjölmiðlum.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrr í dag íhugar norska fjármálaeftirlitið að sekta þennan stærsta banka Noregs um 400 milljón norskra króna, andvirði nærri 6 milljarða íslenskra króna fyrir að fylgja ekki nægilega regluverki um varnir gegn peningaþvætti.

Sektarboðið byggir á könnun sem gerð var á vörnum bankans gegn peningaþvætti sem gerð var í kjölfar umfjöllunar í fréttum um millifærslur Samherja af reikningum hjá bankanum, en þær voru sagðar vera mútugreiðslur til namibískra stjórnmálamanna.

Samherji segir þvert á móti að sektin nú komi til vegna reglubundins eftirlits norska fjármálaeftirlitsins, og jafnframt er tekið fram á vef útgerðarfyrirtækisins að sambærilegar úttektir hafi leitt til sekta hjá öðrum norskum fjármálafyrirtækjum.