„Eftir breytingu [samruna Samherja og Brims á Akureyri, innsk. blm.] þá er Samherji með 7,2% af heildarútflutningi til Evrópu frá Íslandi og 0,78% af heildarinnflutningi til Evrópu. Því er ljóst að áhrif á mörkuðum samrunaaðila eru hverfandi.“ Þetta kemur fram í tilkynningu Samherja til Samkeppniseftirlitsins vegna kaupa félagsins á starfsemi Brims á Akureyri, áður Útgerðarfélags Akureyringa (ÚA), fyrir um 14,5 milljarða króna. Félagið fær nafnið Útgerðarfélag Akureyringa. Kaupin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins sem enn hefur ekki verið gefið. Samherji lagði 3,6 milljarða fram í reiðufé en Landsbankinn fjármagnaði restina, eða 10,9 milljarða króna og verður viðskiptabanki ÚA, eins og hann hefur raunar verið til þessa.

Slæm staða Brims

Samkvæmt upplýsingum er fram komu í Morgunblaðinu 3. maí sl. var slæm skuldastaða Brims ein ástæða þess að viðskiptin áttu sér stað. Hluti kaupverðsins fór í að gera upp við skilanefnd Glitnis vegna skulda Brims við þrotabú hins fallna banka.

Í kaupunum felst að Samherji eignast fiskvinnslu á Akureyri og á Laugum ásamt vélum og tækjum, ísfisktogarana Sólbak EA 1 og Mars RE 205, sem áður hét Árbakur. Veiðiheimildarnar eru í þorski, ýsu, steinbít og skarkola, samtals 5.900 þorskígildistonn. Samanlagt eru veiðiheimilidir nokkuð undir leyfilegu hámarki í einstökum tegundum og í heild samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða, að því er sagði í tilkynningu Samherja vegna viðskiptanna.

Yfir 300 manns í landi

Starfsmenn Samherja í landvinnslu á Eyjarfjarðarsvæðinu verða rúmlega 300 við kaupin. Um 150 eru á Dalvík og 150 á Akureyri. Þá starfa um 20 manns á Laugum auk þess sem áhafnir á skipum Samherja koma að stórum hluta af Eyjafjarðarsvæðinu og nærsveitum. Rekstur Samherja hefur gengið vel undanfarin misseri, þá ekki síst starfsemin erlendis. Aðeins um 20 til 25% tekna Samherja koma vegna starfsemi á Íslandi en 75 til 80% vegna starfsemi erlendis, þar helst í Evrópu og út fyrir Norður-Afríku.