Útgerðarfyrirtækið Samherji er sagt hafa greitt stjórnmálamönnum og öðrum hagsmunaaðilum í Namibíu stórfé til að komast yfir veiðirétt við strendur landsins. Um sé að ræða greiðslur sem nema á annan milljarð króna.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í umfjöllunum tveggja miðla sem birtar voru í kvöld, annars vegar í fréttaskýringarþættinum Kveik og hins vegar í Stundinni. Umfjöllun íslensku miðlana var unnin í samstarfi við Wikileaks og sjónvarpsstöðina Al Jazeera.

Birt voru skjöl og tölvupóstar frá Wikileaks um starfshættina en gögnin eru upphaflega komin frá Jóhannesi Stefánssyni, fyrrverandi verkefnastjóra Samherja í Namibíu. Gögnin eru afar umfangsmikil, og hafa blaða- og fréttamenn miðlanna unnið úr þeim á undanförnum mánuðum, bæði hér heima og í Namibíu.

Samkvæmt gögnunum, svo vitnað sé til umfjöllunar Kveiks, sem var lekið til Wikileaks, kom Samherji sér upp samböndum við háttsetta menn í Namibíu. Að sögn viðmælenda Kveiks og Stundarinnar benda gögnin til þess að Samherji hafi greitt þeim, aðallega í gegnum félög í Namibíu og Dúbaí, samtals um einn og hálfan milljarð króna á núvirði, og vart hægt að túlka þær öðruvísi en um mútufé sé að ræða. Einn þeirra sem er þeirra skoðunar er Daniel Balint-Kurti, rannsakandi hjá samtökunum Global Witness , sem hefur kynnt sér gögnin.

Í Kveik var greint frá því að þrjár eftirlitsstofnanir í Namibíu, þar á meðal spillingarlögreglan ACC, hefðu undanfarinn mánuð rannsakað starfshætti Samherja og meinta mútuþægni. Jóhannesi hefur verið tryggð staða uppljóstrara gagnvart namibískum stjórnvöldum í málinu.

Yfirlýsing frá Samherja send fjölmiðlum í kvöld

Samherji sendi frá sér yfirlýsingu til fjölmiðla seint í kvöld , stuttu eftir að umfjöllun Kveiks lauk. Þar er í raun sagt að sökin liggi hjá Jóhannesi sem kom skjölunum til Wikileaks.

„Það voru okkur mikil vonbrigði að komast að því að Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Samherjafélaganna í Namibíu, virðist hafa tekið þátt í gagnrýniverðum viðskiptaháttum og hugsanlega flækt Samherja í viðskipti sem kunna að vera ólögmæt,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, í yfirlýsingunni.

Þar segir að Jóhannesi hafi verið sagt upp störfum á árinu 2016 „eftir að hann misfór með fé og hegðaði sér með óforsvaranlegum hætti. Nú hefur hann viðurkennt að hafa tekið þátt í ólöglegri starfsemi á meðan hann stýrði dótturfélögum Samherja í Namibíu.“

Samherjamenn segja að „þar til nýlega“ hafi fyrirtækið ekki haft nokkra vitneskju um þessa viðskiptahætti félaga sinna í Namibíu, og var stjórnað af Jóhannesi.

Samherji hefur þegar sagt að þeir hafi ráðið alþjóðlegu lögmannsstofuna Wikborg Rein í Noregi til að rannsaka starfsemina í Namibíu.

Héraðssaksóknari með málið á sínu borði

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari sagði í viðtali við Vísi í kvöld að embættið muni taka mál Samherja í Namibíu til skoðunar vegna þeirra upplýsinga sem fram komu í Kveik. Segir hann þungamiðju málsins liggja hjá stjórnvöldum í Namibíu og það sem yrði aðhafst hér á landi yrði gert í samvinnu við namibísk yfirvöld eða þar til bær yfirvöld. Í seinni fréttatíma RÚV í kvöld kom fram að Jóhannes hefði mætt í skýrslutökur hjá héraðssaksóknara í morgun.

Eins og fjölmiðlar hafa fjallað um fyrr í dag og í gæ r sendi Samherji frá sér yfirlýsingu vegna væntanlegrar umfjöllunar kvöldsins.

Umfjallanir miðlanna tveggja hafa vakið hörð viðbrögð. Hafa þingmenn stjórnarandstöðuflokka þegar krafist þess að málið verði tekið upp á vettvangi Alþingis.

Í frétt RÚV kemur fram að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, segir þingsályktunartillögu um skipun rannsóknarnefndar um fjárfestingarleið Seðlabankans sé á lokametrunum í úrvinnslu þingsins. Mál kvöldsins hljóti að koma þar til umfjöllunar.