Útgerðarfélagið Samherji á Akureyri tilkynnti í gær að það hygðist verja 50 milljónum króna til samfélagsverkefna á Akureyri.

Tilefnið er að í gær voru 25 ár liðin frá því að fyrsta skip Samherja, Akureyrin, fór í sína fyrstu veiðiferð.

Að stærstum hluta rennur framlagið til lækkunar á æfingagjöldum barna og unglinga í íþróttum og til greiðslu kostnaðar við keppnisferðir þeirra í vetur.   Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja og Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs fyrirtækisins, tilkynntu framlagið í hófi í Ketilhúsinu á Akureyri síðdegis í gær.

Í ræðu sinni sagði Þorsteinn Már m.a.:

„Samherji hefur í 25 ár verið hluti af samfélaginu hér og lengst af meðal stærstu fyrirtækja á svæðinu. Því fylgir ábyrgð og við höfum reynt að efla eftir bestu getu hag þess fólks sem hjá okkur starfar og fjölskyldna þess. Við höfum jafnframt reynt að láta samfélagið í kringum okkur njóta góðs af starfseminni með því að styrkja innviði þess með ýmsum hætti.“

Þorsteinn Már sagði þátttöku barna og unglinga í íþróttum ómetanlegan þátt í forvörnum og uppeldi.  Auk íþróttafélaga á Akureyri styrkir Samherji líka æskulýðsstarf kirkjunnar á Akureyri og íþróttastarf barna og unglinga á Dalvík, þar sem fyrirtækið hefur lengi verið með öflugt frystihús.

Meðal þess sem Samherji tilkynnti í gær er að fyrirtækið verður aðalbakhjarl verkefnis sem ber vinnuheitið Hreyfing og útivist, hugarfósturs Stefáns Gunnlaugssonar formanns KA og verður hleypt af stokkunum innan skamms.

Þá afhenti Samherji Hjartaheill og HL-stöðinni á Akureyri styrk til minningar um tvíburabræðurna Vilhelm og Baldvin Þorsteinssyni, feður Þorsteins Más og Kristjáns, en þeir létust báðir langt fyrir aldur fram.