Sjávarútvegsfyrirtækið Samherji hefur gert tilboð í 80% hlut í fjárfestingafélaginu ESTIA hf. Síðarnefnda félagið á 71% hlut í Slippnum Akureyri, sem er stærsta skipasmíðafyrirtæki landsins. Verður Samherji þannig meirihlutaeigandi í Slippnum ef kaupin verða samþykkt af Samkeppniseftirlitinu. Markaðurinn á Fréttablaðinu greinir frá þessu.

„Við gerðum öllum eigendum ESTIA, sem ekki tengjast Samherja, nýverið tilboð í þeirra hlutabréf. Við vonumst eftir því að þetta gangi í gegn hjá Samkeppniseftirlitinu sem fyrst,“ segir Eiríkur S. Jóhannsson, stjórnarformaður Samherja, í samtali við Markaðinn. Segir hann kaupin hafa átt sér skamman aðdraganda.

Eiríkur segir stjórnendur Samherja hafa engin áform um breytingar á rekstri Slippsins. „Enn sem komið er liggur ekki annað fyrir af hálfu Samherja um nokkuð annað en að fyrirtækið haldi áfram í óbreyttum rekstri.“