Kaupmáttur launa er nú orðinn sá sami og hann var í lok árs 2003. Hefur hann lækkað um 9,7% frá því að hann náði sögulegu hámarki í byrjun árs 2008.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka í morgun en þar kemur fram að lækkunin undanfarið er meiri og hraðari en hér hefur mælst síðan á samdráttarskeiðinu um og eftir 1990.

„Kaupmáttur launa stendur um 8,9% hærra en hann gerði fyrir tíu árum síðan og 24,9% hærri en hann gerði fyrir tuttugu árum,“ segir í Morgunkorni en í tölum Hagstofunnar sem birtar voru í morgun kemur fram að launavísitalan lækkaði í apríl um 0,2% frá fyrri mánuði og hefur þá lækkað um 4,4% síðustu 12 mánuði.

Kaupmáttur launa lækkaði þannig um 0,6% frá fyrri mánuði og um 6,7% síðustu 12 mánuði.

„Vænta má þess að launahækkanir verði litlar á næstu mánuðum enda mikill slaki á vinnumarkaði,“ segir Greining Íslandsbanka í Morgunkorni.

Sjá nánar Morgunkorn Íslandsbanka.