Dótturfélag Samskipa, Geest North Sea Line, hefur gengið frá leigu á fjórum nýjum gámaflutningaskipum og verða þau afhent félaginu á næsta ári. Nýju skipin eru eins og Geeststroom og Geestdijk, sem Geest tók í notkun á fyrrihluta þessa árs, og geta þau flutt 812 tuttugu feta gámaeiningar. Þau eru sérstaklega hönnuð og byggð eftir óskum Geest af skipasmíðastöðin Damen Shipyards Group í Rúmeníu og er áætlaður afhendingartími tveggja skipa vorið 2006 og hinna tveggja um haustið 2006. Tvö skipanna verða eingöngu notuð á siglingaleiðum félagsins til Bretlands en hin munu þjóna jöfnum höndum öðrum áætlunarleiðum félagsins.

Að sögn Wout Pronk, framkvæmdastjóra Geest, hafa nýju skipin, Geeststroom og Geestdijk, reynst afar vel. ?Þau eru í siglingum milli Rotterdam og Hull, með stöku viðkomu í Tilbury, og er siglingatíminn mun styttri en hjá minni skipunum okkar og auðveldar það okkur að standast áætlanir. Með sex svona skip í siglingum skapast því mun meiri sveigjanleiki í rekstrinum.?

Samskip keyptu Geest North Sea Line í mars sl. og eru félögin nú með 18 gámaflutningaskip í föstum áætlunarsiglingum milli meginlands Evrópu og Bretlands, Írlands, Spánar, Skandinavíu, Eystrasaltslandanna og Rússlands. Þá eru fjögur gámaskip í áætlunarferðum milli Íslands, Færeyja, Bretlands og meginlandsins.

Frá höfninni í Rotterdam býður Geest upp á flutninga með fljótaprömmum, lestum og bílum um nær alla Evrópu. Hefur félagið sérhæft sig í flutningum á 45 feta gámum, bæði hefðbundnum og með hliðaropnun, sem hafa í æ ríkari mæli verið að ryðja sér til rúms í Evrópu í samkeppni við vöruflutningabíla. Jafnframt hafa flutningar með 45 feta kæli- og frystigámum, svokölluðum Coolboxx sem Geest á hlut í, verið að aukast milli meginlands Evrópu, Bretlands og Írlands segir í tilkynningu félagsins.