Samkomulag náðist síðdegis milli SA og ASÍ um frestun fyrirhugaðra launahækkana 1. mars en ákveðið var að fresta ákvörðun um endurskoðun kjarasamninga um allt að fjóra mánuði. Í tilkynningu kemur fram að samningsaðilar telja að þessi frestun sé mikilvægt framlag til stöðugleika í efnahagslífinu.

Þannig geti skapast aðstæður til þess að hratt dragi úr verðbólgu og vextir geti lækkað. Í sameiginlegum áherslum SA og ASÍ segir að á næstu dögum og vikum þurfi að grípa til margvíslegra aðgerða til þess að verja hag heimilanna og fjölga störfum.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir að SA séu sátt við að náðst hafi að fresta endurskoðun samninganna fram í júní. Eina hækkunin sem verði nú sé hækkun á lágmarkstekjutryggingu fyrir dagvinnu, sem verði 157 þúsund krónur á mánuði. „Það var nauðsynlegt til þess að skapa ótvíræðan hvata fyrir fólk til að vinna. Í núverandi atvinnuástandi er alltaf hætta á því að ákveðinn hópur vilji fremur þiggja atvinnuleysisbætur en vinna þótt langflestir kjósi að vinna."