Skrifað verður undir samning um samstarf um þróun á sviði jarðhitanýtingar milli Íslands, Bandaríkjanna og Ástralíu í lok ágústmánaðar. Þessar þrjár þjóðir standa einna fremst í nýtingu jarðhita meðal þjóða heims. Að sögn Guðna A. Jóhannessonar orkumálastjóra felst í samstarfinu rannsóknar- og þróunaráætlun, einkum með tilliti til djúpborana sem hafnar eru hér á landi. Framlag Íslendinga til samstarfsins er verulegt á því sviði.

„Við höfum haft forgöngu um að hefja tilraunir með djúpborun inn í mun heitari jarðlög en áður hefur verið gert. Nú er byrjað að bora fyrstu holuna í Kröflu, sem er hluti af djúpborunarverkefninu. Við erum komnir í fremstu röð meðal þeirra sem reyna nýjar aðferðir á þessu sviði,“ segir Guðni.

Með samstarfssamningnum eru sköpuð tengsl á milli þessara landa og um leið tengsl milli fyrirtækja á þessu sviði. Það eru forsvarsmenn orkumálaráðuneyta landanna þriggja sem skrifa undir samninginn. Guðni segir að það felist gríðarleg viðurkenning á stöðu Íslands í orkumálum að Bandaríkjamenn og Ástralar sækist eftir samstarfi á þessum grundvelli. Síðar meir geti samstarfið skilað verkefnum út til íslenskra fyrirtækja. Samstarfssamningurinn geti því falið í sér mikil tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf um leið og hann er framlag Íslands til vistvænni orkuöflunar.