Stjórnir Og Vodafone (Og fjarskipta hf.) og Norðurljósa hafa komist að samkomulagi um kaup Og Vodafone á öllu hlutafé tveggja dótturfélaga Norðurljósa, Íslenska útvarpsfélagins ehf. (ÍÚ) og Fréttar ehf. Þetta er breyting frá því fyrirkomulagi sem kynnt var í tilkynningu til Kauphallar Íslands þann 28. október sl. þar sem gert var ráð fyrir að Og Vodafone myndi kaupa allt hlutafé í Norðurljósum. Samkomulagið er gert með fyrirvara um samþykki hluthafafundar og afstöðu samkeppnisyfirvalda.

Heildarkaupverð (enterprise value) er samtals 5.800 m.kr. m.v. markaðsgengi bréfa Og Vodafone í lok dags í gær 6. des. sem greiðist að hluta með útgáfu nýrra hluta í Og Vodafone að nafnverði 810 m.kr. og hins vegar með peningum.

Skattamál Norðurljósa og tengdra félaga hafa verið til skoðunar um nokkurt skeið. Í áreiðanleikakönnun sem framkvæmd var í tengslum við kaupin er tekið á mögulegum skattaskuldbindingum ÍÚ. Endanleg niðurstaða varðandi skattaskuldbindingar ÍÚ liggur ekki fyrir en verði athugasemdir skattyfirvalda staðfestar af yfirskattanefnd og eftir atvikum dómstólum er það mat stjórnenda Og Vodafone að samanlögð fjárhæð þessara skuldbindinga geti ekki orðið hærri en 460 m.kr. og er í kaupverði tekið tillit til þessa. Stjórnendur Og Vodafone telja að með þessu sé mætt ýtrustu kröfum opinberra aðila án þess að um viðurkenningu á ofangreindum kröfum sé að ræða.

Áætluð velta yfir 6 milljarðar

Kaupverðið miðast við að heildareignir ÍÚ og Fréttar séu um 6.500 m.kr. og að vaxtaberandi skuldir séu um 3.400 m.kr. Uppbygging og tilheyrandi fjárfesting vegna Digital Ísland stendur yfir og má gera ráð fyrir viðbótarfjárfestingu vegna þess sem verður fjármögnuð með lánsfé að fjárhæð 500 m.kr. Áætlanir gera ráð fyrir að á næsta ári muni velta félaganna tveggja, ÍÚ og Fréttar, nema yfir 6.000 m.kr. og að EBITDA félaganna muni nema 700-900 m.kr. Að jafnaði má gera ráð fyrir að fjárfestingahlutfall ÍU og Fréttar nemi 3 - 3,5% af veltu.

Samþætting rekstrar framundan

?Með kaupum á dótturfélögum Norðurljósa er verið að kaupa eignir sem falla vel að rekstri Og Vodafone. Þá er búið að taka tillit til helstu óvissuþátta þannig að stjórnendur félaganna geta nú einbeitt sér að því að samþætta rekstur og ná fram þeim samlegðaráhrifum sem í félögunum búa," segir Eiríkur S. Jóhannsson, forstjóri Og Vodafone.

Samhliða þessu samkomulagi boðar Og Vodafone til hluthafafundar sem haldinn verður í Ársal Hótel sögu, miðvikudaginn 15. desember 2004. Á fundinum verður lögð fyrir hluthafa tillaga um heimild til hækkunar hlutafjár félagsins um allt að 810 m.kr. að nafnvirði vegna kaupanna. Á fundinum verður nánar gerð grein fyrir kaupunum.