Urriðaholt ehf. hefur samið við fasteignasölurnar Eignamiðlun og Miðborg um að annast sölu á lóðum í fyrsta áfanga íbúðabyggðar í Urriðaholti í Garðabæ. Um er að ræða lóðir fyrir allt að 377 íbúðir, þar á meðal í fjölbýli, einbýli, raðhúsum og parhúsum. Sala lóðanna hefst 15. maí næstkomandi og tilboðsfrestur er til 24. maí að því er kemur fram í tilkynningu.

Í samningnum er áhersla lögð á skýrar verklagsreglur í þeim tilgangi að gæta jafnræðis gagnvart væntanlegum kaupendum.

Urriðaholt er nýtt hverfi í Garðabæ, ofan við Urriðavatn og í næsta nágrenni Heiðmerkur. Við skipulagningu Urriðaholts hefur áhersla verið lögð á sjálfbæra, mannvæna og umhverfisvæna byggð í tengslum við náttúruna, sem nýtur um leið greiðra samgönguleiða í næsta nágrenni. Þegar Urriðaholt verður fullbyggt er gert ráð fyrir að þar búi um 4.400 manns.