Vegagerðin stefnir að því að ljúka samningsgerð á næstu dögum við Ingileif Jónsson ehf. um tvöföldun Suðurlandsvegar á milli Litlu kaffistofunnar og Lögbergsbrekku. Fyrirtækið átti fjórða lægsta tilboðið í verkið en samningsgerðin var stöðvuð fyrr í sumar vegna kæru frá Háfelli ehf.

Kærunefnd útboðsmála hafnaði kröfu Háfells þann 9. ágúst. Tilboð voru opnuð í tvöföldunina þann 20. apríl og bárust 15 tilboð. Lægsta tilboðið stóðst ekki kröfur Vegagerðarinnar og því hófust samningaviðræður við Vélaleigu AÞ sem átti næstlægsta tilboðið. Það kærði Háfell sem átti þriðja lægsta boðið. Kærunefndin stöðvaði samningsgerðina vegna óskýrs orðalags í útboðsgögnum. Því væri ekki heimilt að semja við Vélaleigu AÞ. Tilboð Háfells væri ekki heldur gilt. Var því hafin samningsgerð við Ingileif Jónsson ehf. sem líka var kærð.