Skrifað verður undir samning í dag á milli Flugstoða og Ístaks um lengingu flugbrautar á Akureyrarflugvelli.

Loftur Árnason framkvæmdastjóri Ístaks segir að hafist verði handa við framkvæmdir í byrjun maí.

Ístak átti lægsta tilboðið í verkið í útboði Ríkiskaupa.

Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 554.853.000 krónur, en Ístak bauð 475.161.655 krónur í verkið.

Alls buðu sex aðilar í þetta verkefni. Þar var Ístak sem fyrr segir lægst, en síðan kom Árni Helgason ehf. og G.V. Gröfur ehf. með tæpar 487 milljónir króna.

Klæðning ehf. bauð 500 milljónir, Háfell hf. bauð rúmar 542 milljónir og Suðurverk hf. og G. Hjálmarsson hf. buðu tæpar 568 milljónir en rúmar 530 milljónir í frávikstilboði.

Héraðsverk rak svo lestina með tilboð upp á tæplega 949 milljónir króna.