*

fimmtudagur, 15. apríl 2021
Innlent 21. febrúar 2018 10:30

Samið að nýju við flugfreyjur Wow

Í nótt var undirritaður nýr kjarasamningur Flugfreyjufélags Íslands við Wow air sem bætir laun stjórnenda.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Wow Air ehf og Flugfreyjufélag Íslands undirrituðu nýjan kjarasamning í nótt en hann verður borinn undir atkvæðagreiðslu meðal flugfreyja til 28. febrúar næstkomandi að því er Vísir segir frá.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær munaði litlu í síðustu atkvæðagreiðslu en samningar voru felldir í gær með um 54% atkvæða. Taldi Orri Þrastarson varaformaður Flugfreyjufélagsins að mögulega hefði ekki allir verið á eitt sáttir með þær kerfisbreytingar á vinnuframlagi sem fólust í samningnum.

Segir hann helsta muninn á þessum samningi sem nú var skrifað undir og þeim tveimur fyrri sem hafi verið felldir séu að kjör fyrstu flugfreyja, þeirra sem stýra hverri áhöfn flugliða, muni batna umtalsvert.