Óðinn Jónsson og útvarpsstjórinn Magnús Geir Þórðarson hafa gert samkomulag um áframhaldandi störf Óðins fyrir Ríkisútvarpið (RÚV). Framkvæmdastjórn RÚV var sagt upp á dögunum og auglýst eftir nýjum stjórum. Óðinn hefur verið fréttastjóri RÚV frá árinu 2005 og er hann einn framkvæmdastjóra. Hann var því á meðal þeirra níu sem sagt var upp og gat sótt um að nýju. Í tilkynningu frá RÚV í dag kemur hins vegar fram að Óðinn hyggst ekki sækjast eftir endurráðningu sem fréttastjóri. Hann muni starfa við hlið nýs fréttastjóra til 1. október næstkomandi. Eftir það muni hann færast til innan RÚV og sinna störfum á sviði dagskrárgerðar og fréttatengds efnis.

Nánari útfærsla á þessum verkefnum verður kynnt síðar.

Umsóknarfrestur til að sækja um stöður níu framkvæmdstjóra, þar á meðal stöðu fréttastjóra, rennur út 2. apríl næstkomandi.