Útlendingastofnun og Alþjóða fólksflutningsstofnunin hafa samið um að hefja tilraunaverkefni sem snýst um að aðstoða við sjálfviljuga heimför umsækjenda um vernd á Íslandi. Þetta kemur fram á vefsíðu Innanríkisráðuneytisins.

Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri telur samninginn mikilvægan lið í umbótum á útlendingamálum sem ráðuneytið og samstarfsaðilar hafa unnið að.

Meginmarkmið samningsins er að gera umsækjendum um vernd mögulegt að snúa aftur til síns heima með mannúðlegum og öruggum hætti án aðkomu lögreglu.

Hann beinist jafnframt fyrst og fremst að umsækjendum sem hafa annaðhvort dregið umsókn sína til baka eða verið synjað um vernd hér á landi.