Samið verður um framhald þeirra verkefna sem byggja á svonefndum IPA-styrkjum Evrópusambandsins og eru þegar hafin, í september næstkomandi. Þetta segir Margrét Gísladóttir, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, í samtali við Morgunblaðið. Hún tekur fram að ef ekki hafi verið ritað undir samning um verkefni falli styrkirnir niður. "Þau eru sem sagt stopp og það verður líklegast ekki samið neitt meir um það," segir Margrét og bætir við: "Íslensk stjórnvöld höfðu lagt áherslu á við framkvæmdastjórn ESB að af okkar hálfu myndum við vilja standa við öll þau verkefni sem séu tilbúin til undirritunar að fullu en svo neitar ESB því á grundvelli þess að IPA-styrkir eru hugsaðir til landa sem eru í aðildarferli."

Samið verður um 1,6 milljarða króna

Styrkir vegna þeirra verkefna sem samið verður um í september nema samtals rúmum 10,2 milljónum evra en það jafngildir, samkvæmt gengi gærdagsins, rúmum 1,6 milljörðum króna. Styrkir vegna þeirra verkefna sem falla niður nema hinsvegar samtals tæpum 23,8 milljónum evra en það jafngildir, samkvæmt gengi gærdagsins, rúmum 3,7 milljörðum króna. Meðal verkefna sem hætt verður við eftir að ESB skrúfaði fyrir IPA-styrki er gerð nýs tollakerfis sem tekur mið af þörfum ESB. Snorri Olsen tollstjóri segir að IPA-styrkurinn hafi átt að nema um 945 milljónum króna. Til stóð að mótframlag íslenskra stjórnvalda til verksins næmi um 1.150 milljónum króna á fimm árum.