Sæstrengurinn Emerald Express, sem lagður verður milli N-Ameríku og Evrópu með tengingu við Ísland, kemur að landi í Mayo-sýslu á vesturströnd Írlands. Samningurinn um tenginguna var undirritaður á Írlandi mánudaginn var, þ.e. 22. apríl síðastliðinn. Íslenska fjárfestingafélagið Thule Investments sér um fjármögnun strengsins á Íslandi en heildarkostnaður við framleiðslu og lagningu Emerald Express er áætlaður 320 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði 37,5 milljarða íslenskra króna. Þar af er gert ráð fyrir að tengingin við Ísland kosti 45 milljónir dala, tæpa 5,3 milljarða.

Gert er ráð fyrir því að strengurinn verði tekinn í notkun síðla árs 2014. Hann mun koma að landi skammt frá Grindavík en vegna tengingarinnar mun Emerald Networks byggja upp öflugt ljósleiðarakerfi á Reykjanesi.

Ný tækni krefst meiri bandvíddar

Fram kemur í tilkynningu að samningurinn kveður á um uppbyggingu á landstöð Emerald í Mayo-sýslu, margvíslega þjónustu við strenginn sem miðar að því að þróa eitt háþróaðsta fjarskiptakerfi sem nú þekkist og nýta sem best þá möguleika sem Emerald sæstrengurinn býður uppá.

Sæstrengurinn byggir á nýrri tækni og verður afkastamesta og hraðasta gagnaflutningstenging sem um getur milli Bandaríkjanna og Evrópu. Flutningsgeta strengsins verður í  upphafi 40.000 gígabitar á sekúndu en strengurinn byggir á nýrri tækni sem auðveldar til muna uppfærslur á afkastagetu hans.

Í tilkynningunni er haft eftir dr. William C. Marra, forstjóra Emerald Networks, að samningurinn við Mayo-sýslu er mikilvægur fyrir Emerald og þróun fjarskipta í heiminum þar sem sífellt meiri eftirspurn er eftir bandvídd vegna aukinnar margmiðlunar og þróunar á hugbúnaðar- og fjarskiptamarkaðnum.