Landsnet hefur undirritað samkomulag um raforkuflutninga við PCC BakkiSilicon hf., dótturfyrirtæki þýska félagsins PCC SE, sem hyggst byggja kísilver á Bakka við Húsavík. Þetta er fyrsti samningurinn sem Landsnet gerir vegna fyrirhugaðrar iðnaðaruppbyggingar á Bakka. Áætluð aflþörf fyrsta áfanga verksmiðunnar er 52 megavött (MW) og miðast samkomulagið við að starfsemin hefjist árið 2017

PCC SE er alþjóðleg samsteypa fyrirtækja með höfuðstöðvar í Duisburg í Þýskalandi. Áætluð framleiðslugeta fyrirhugaðs kísilvers á Bakka er 32 þúsund tonn af kísilmálmi á ári, með möguleika á stækkun upp í 64 þúsund tonna árlega framleiðslu. Samkomulagið miðast við að orkuafhending hefjist í mars 2017 og starfsemin verði komin á fullt skrið þremur mánuðum síðar. Samkvæmt því skal Landsnet tryggja orkuflutning til kísilversins frá meginflutningskerfinu og þeim framleiðslueiningum sem munu tryggja verinu raforku. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist strax á næsta ári.

„Undirbúningur og hönnun fer á fullan skrið hjá okkur á þessu ári og áætlað að framkvæmdir hefjast strax á næsta ári. Það sem gerir okkur kleift að hefja framkvæmdir svo skjótt er að nauðsynlegar skipulagsbreytingar og umhverfismat framkvæmda hefur þegar farið fram í tengslum við fyrri áform um uppbyggingu á Bakka,“ segir Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets.

„Undirritun þessa samkomulags er mikilvægur áfangi fyrir verkefnið og fjármögnun þess og færir okkur nær því markmiði okkar að að reisa kísilver á Bakka. Áætlað er að verið skapi um 125 framtíðarstörf á þessu svæði, að ótöldum þeim störfum sem verða til vegna kaupa á þjónustu og orku,“ segir Peter Wenzel, aðstoðarforstjóri þróunarsviðs PCC.

Áætlaður kostnaður við tengingu iðnaðarsvæðisins á Bakka við meginflutningskerfi Landsnets með 220 kílóvolta (kV) háspennulínu hljóðar upp á tæpa fimm milljarða króna.