Undirritaður hefur verið samningur milli Íslands og Austurríkis til að koma í veg fyrir tvísköttun og nær samningurinn til tekju- og eignaskatta. Helstu efnisatriði samningsins eru þau að samið var um 5% afdráttarskatt af arði ef félagið sem móttekur arðinn á a.m.k. 10% í félaginu sem greiðir arðinn.

Að öðrum kosti er afdráttarskattur af arði 15%. Enginn afdráttarskattur er af vöxtum en 5% afdráttarskattur er af þóknunum. Samkvæmt samningnum er frádráttaraðferð beitt í því skyni að koma í veg fyrir tvísköttun og jafnframt er að finna ákvæði um aðstoð við innheimtu skatta.

Undirritunin fór fram í Vín í Austurríki og undirritaði Auðunn Atlason sendiherra samninginn fyrir hönd Íslands en Michael Linhart, ráðuneytisstjóri í austurríska utanríkisráðuneytinu fyrir hönd Austurríkis. Þetta kemur fram á fréttavef Fjármálaráðuneytisins í dag.