Flugfélagið Ernir mun áfram sinna innanlandsfluginu til Hafnar í Hornafirði eftir samninga við Vegagerðina þess efnis, en Norlandair mun taka við af Erni í fluginu til tveggja áfangastaða á Vestfjörðum. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá um miðjan september kærði Ernir útboð Vegagerðarinnar á flugleiðunum þremur þar sem félagið hafi átt lægsta tilboðið í flugið til Hafnar.

Eftir að kærunefnd útboðsmála aflétti stöðvunarkröfu vegna upphaflegu kærunnar tók Vegagerðin nýja ákvörðun 14. október síðastliðinn sem einnig var kær. Kærunefndin aflétti svo annarri stöðvun og heimilaði samninga 30. október síðastliðinn og segist Vegagerðin þá hafa gengið til samninga við lægstbjóðendur í útboðinu sem upphaflega var opnað í júní.

Samið var við Norlandair um að taka við fluginu milli Reykjavíkur annars vegar og Gjögur og Bíldudals á Vestfjörðum hins vegar.

Jafnframt var samið við Ernir um áframhaldandi flug til Hafnar í Hornafirði, en í viðtali við Viðskiptablaðið í janúar á síðasta ári sagði Hörður Guðmundsson forstjóri félagsins frá ástæðunum fyrir kaupum félagsins á nýrri flugvél sem þá sætti kyrrsetningu flugmálayfirvalda.

„Fyrir nokkrum árum hafði samband öflugt kanadískt fyrirtæki sem selur ferðir til dæmis á Nýja-Sjálandi og víðar um heim. Forstjórinn kom hingað og vildi byggja upp með okkur í ferðaþjónustu á Íslandi. Hann byrjaði á því að fara með okkur austur á Hornafjörð og í framhaldi af því koma litlir hópar á vegum fyrirtækisins, sniðnir að stærð okkar véla. Hann hefur keypt leiguflug með þennan hóp, en á endastöð eins og á Hornafirði þá tekur rúta á móti fólkinu. Eftir að hafa flogið aðra leiðina þá hjólar fólkið hluta af leiðinni til baka, tekur rútu hluta af leiðinni, það fer á jökul og á Jökulsárlón. Það gistir á hótelum nokkrar nætur á leiðinni en þetta er kannski vikutúr og endar svo í Keflavík og þá er farið heim,“ sagði Hörður þá.

„Fyrsta árið sendi hann fimm svona hópa, næsta ár voru þeir tólf, síðan 25 hópar, og var það í tvö til þrjú ár, en á síðasta ári fórum við í fimmtíu svona ferðir fyrir hann. Nú er þetta fyrirtæki búið að panta með nýju stóru vélinni okkar, og er það ein af ástæðunum fyrir því að við erum búin að kaupa stærri og öflugri vél, 26 sæta á Hornafjörð með hverri ferð í allt sumar. Þess vegna er það ákaflega mikið atriði að við getum komið vélinni í gang, og jafnvel fjölgað í vélum af þessari stærð. Hluti af því að ferðamennskan hefur ekki farið í flugið er kannski vegna þess að það hefur ekki verið hægt að sinna henni. Það er mikið atriði fyrir okkur að geta því náð vélinni í notkun, og helst aðra til, en í kortunum er að við getum fengið aðra svona vél lánaða.“