Fulltrúar Vegagerðarinnar og Suðurverks hf. skrifuðu í gær undir samning um vegagerð á tæplega 16 km kafla af Vestfjarðavegi, þ.e. kaflanum Eiði - Þverá. Núverandi kafli er 24 km malarvegur, nýlögn verður 10 km en stytting kemur til vegna þverana tveggja fjarða, Kjálkafjarðar og Mjófjarðar.

Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar. Fram kemur að Suðurverk mun hefjast handa við verkið á næstu dögum. Nú þegar er prammi sem notaður verður við þveranirnar á leiðinni frá Noregi en Suðurverk hefur lánað hann út til verka þar.

Suðurverk átti næstlægsta boðið í verkið en lægstbjóðandi stóðst ekki kröfur Vegagerðarinnar til verks af þessari gerð. Ekki kemur fram hver sá aðili er. Fram kemur að Suðurverk bauð tæplega 2,5 milljarða króna í verkið en áætlaður verktakakostnaður var tæpir 2,6 milljarðar króna. Heildarkostnaður er líklegur um 3 milljarðar króna og verkið verður unnið á þremur árum.

Sjá nánar á vef Vegagerðarinnar.