Þýska samheitalyfjafyrirtækið Stada hefur gert kauptilboð að virði 636 milljónir Bandaríkjadala, eða um 48 milljarðar íslenskra króna, í serbneska fyrirtækið Hemofarm, segir í frétt frá viðskiptafréttaveitunni The Deal.

Sérfræðingar hafa bent á það að aukin samþjöppun á samheitalyfjamarkaði sé óhjákvæmileg þar sem fimm stærstu fyrirtækin berjast um markaðshlutdeild og hafa verið dugleg að gleypa minni keppinauta.

Töluverð eftirspurn hefur verið eftir samheitalyfjafyrirtækjum í Mið- og Austur-Evrópu, en íslenska samheitalyfjasamstæðan Actavis hefur keypt nokkur fyrirtæki á svæðinu og keppir nú við bandaríska fyrirtækið Barr um að kaupa króatíska fyrirtækkð Pliva fyrir um 173 miljarða króna.

Sérfræðingar eru sammála um að samkeppnin um markaðshlutdeild í Mið- og Austur-Evrópu, þar sem framleiðslukostnaður er mun lægri en í Vestur-Evrópu og í Bandaríkjunum og fyrirtækjamarkaðurinn er mun fjölbreyttari, muni aukast verulega á næstunni.