Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, segir að samrunahræringar kauphalla í Evrópu og Bandaríkjunum geti leitt til tækifæra fyrir Kauphöll Íslands, sem nú á í samstarfsviðræðum við norrænu kauphöllina OMX. Hann segir að viðræðurnar geti leitt til samruna við norrænu kauphallarsamstæðuna, sem inniheldur hlutabréfamarkaðinn í Stokkhólmi, Helsinki, Kaupmannahöfn og Eystrasaltsríkjunum.

"Undanfarin tvö ár hef ég sagt að sú framtíðarsýn fyrir íslensku kauphöllina sem mér hugnast best sé sameining Kauphallarinnar við OMX, kauphöllina í London og Nasdaq," segir Þórður um þá samþjöppun sem nú á sér stað í alþjóðlega kauphallarumhverfinu.

Orðrómur er á kreiki um að bandaríska kauphöllin Nasdaq og Kauphöllin í London sækist eftir að sameinast OMX, en Nasdaq á 25% hlut í kauphöllinni í London og því telja sérfræðingar það ekki ólíklegt að allar þrjár kauphallirnar sameinist.

Þórður telur að ef orðrómurinn reynist réttur þá sé komin upp ákjósanleg staða fyrir íslenska markaðinn, sem felur í sér sóknarfæri. Í því sambandi mætti meðal annars nefna aukinn sýnileika félaga og greiðari aðgang að erlendum fjárfestum, segir hann. "Það yrði afar hagstætt að sameinast markaði sem spannaði öll helstu markaðssvæði Íslendinga" segir Þórður.

Nánar í Viðskiptablaðinu í dag.