*

miðvikudagur, 22. september 2021
Innlent 9. apríl 2021 13:30

Samkaup kaupir Kjarvalsbúðina á Hellu

Auk Kjarvals verslunarinnar á Hellu mun Samkaup mun kaupa verslun Krónunnar í Nóatúni 17.

Ritstjórn
Ómar Valdimarsson og Eggert Þór Kristófersson

Samkaup hefur gengið frá kaupum á tveimur verslunum Krónunnar, annars vegar Kjarval á Hellu en hins vegar Krónunni í Nóatúni 17. Viðskiptin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Kaupverð verslananna er trúnaðarmál, að því er kemur fram í tilkynningu Festi til Kauphallarinnar. 

Krónan er sem kunnugt er dótturfélag Festi og eru viðskiptin liður í að uppfylla skilyrði sáttar á milli Festi og Samkeppniseftirlitsins vegna kaupa Festi, áður N1, á Krónunni og fleiri félögum. 

Samkaup áforma að opna verslun undir merkjum Kjörbúðar á Hellu og bætist verslunin þar með í hóp 15 annarra Kjörbúða sem reknar eru um allt land. Í Nóatúni 17, Reykjavík, áforma Samkaup að opna Nettó lágvöruverslun. 

„Þetta eru spennandi tímar og það leggst vel í okkur að opna nýja búð á Hellu, um leið og við fjölgum Nettó-verslunum okkar í Reykjavík,” segir Ómar Valdimarsson, forstjóri Samkaup, í tilkynningunni.

„Við eigum ekki von á öðru en að salan gangi eftir, þannig að kvöð sem á okkur hefur hvílt, samkvæmt sátt við Samkeppniseftirlitið, um að selja verslunareiningu frá okkur á Hellu til annars aðila, falli niður. Við höfum á þriðja ár, bæði í opnum og lokuðum söluferlum, freistað þess að uppfylla skilyrðið, en án árangurs, aðallega vegna andstöðu nærumhverfisins við breytingar. Þetta eru viðskipti sem við hjá Festi og Krónunni eru mjög sátt við”, segir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi.

Stikkorð: Krónan Kjarval Hella Samkaup Festi