Nýtt stjórnendanám Samkaupa, sérstaklega ætlað verslunarstjórum, hófst í Háskólanum á Bifröst, miðvikudaginn 5. maí með yfirskriftinni Forysta til framtíðar . Námið er samstarfsverkefni Samkaupa og Háskólans á Bifröst og var samstarfssamningur undirritaður í tilefni af fyrsta skóladeginum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkaupum.

„Við erum ótrúlega spennt að hefja þetta samstarf með Háskólanum á Bifröst. Samkaup er með framsækna menntastefnu og leggur mikla áherslu á að styðja starfsfólk sitt áfram í frekari starfsþróunar. Eitt af megin markmiðum fyrirtækisins er að starfsmenn fái tækifæri til að stunda nám samhliða vinnu, en það opnar einmitt á tækifæri til þróunar í starfi" segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Samkaupum, í tilkynningunni.

Markmiðið að styrkja þekkingu og færni.

Í náminu er áhersla lögð á tengingu við störf verslunarstjórans og stjórnenda í heimi dagvöruverslana, en markmiðið er að veita verslunarstjórum tækifæri til að styrkja þekkingu sína og færni  til að nýta áfram í starfi. Stjórnendanámið styrkir nemendum í forystuhlutverkinu og fá nemendur jafnframt að þjálfa leiðtogahæfni sína í tengslum við raunveruleg verkefni sem tengt er þeirra starfi. Námið er vottað af Háskólanum á Bifröst og fá nemendur 12ECT háskólaeiningar við útskrift, sem hægt er að fá metnar áfram inn í annað háskólanám. Námið spannar níu mánaða tímabil þar sem farið er yfir þá forystuþætti sem mikilvægir eru fyrir stjórnendur.

„Stjórnendanámið er skemmtilegt og spennandi viðbót við þær námsleiðir sem við bjóðum starfsfólki okkar upp á. Námið er hugsað sem enn eitt skref í að styrkja mannauð Samkaupa og liður í því að efla menntunarstig starfsfólks okkar til framtíðar," segir Gunnur Líf í tilkynningunni.

Samkaup hlaut Menntasprotann 2020 fyrir nýsköpun í mennta og fræðslumálum í atvinnulífinu.Samkaup býður fólki meðal annars upp á að fara í raunfærnimat í atvinnulífinu, þaðan sem það getur haldið áfram í fagnám í verslun og þjónustu, að ljúka stúdentsprófi, að fara í stjórnendanám Samkaupa, svo áfram í diplómanám í viðskiptafræði og verslunarstjórnun og BS í viðskiptafræði.