*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Innlent 30. nóvember 2021 16:05

Samkaup og Vörður verðlaunuð

Samkaup og Vörður hlutu hvatningarverðlaun jafnréttis í dag. Samtök atvinnulífsins og Háskóli Íslands standa að verðlaununum.

Ritstjórn
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttur, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ásamt fulltrúum verðlaunahafa.

Samkaup og Vörður hlutu í dag hvatningarverðlaun jafnréttis en það eru Samtök atvinnulífsins og Háskóli Íslands sem að verðlaununum standa. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Samkaup hlaut verðlaunin í tveimur af þremur flokkum: fjölmenningu og fötlun. Vörður hlaut verðlaunin í flokki kynjajafnréttis. Verðlaunin voru veitt af Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, ráðherra nýsköpunar, iðnaðar og háskóla, við athöfn í hátíðarsal Háskóla Íslands. Þetta er í níunda sinn sem verðlaunin eru veitt en þetta er þó í fyrsta sinn sem þau eru veitt í nokkrum ólíkum flokkum. Markmiðið með hvatningarverðlaunum jafnréttismála er að vekja athygli á fyrirtækjum sem hafa sett jafnrétti á oddinn og jafnframt að hvetja önnur fyrirtæki til þess að gera slíkt hið sama.

Hafa sett sér stefnu í jafnréttismálum

Í rökstuðningi dómnefndar kemur meðal annars fram að Samkaup hafi sett sér stefnu, tilgang og markmið í jafnréttismálum, þ.á.m. í málefnum starfsmanna af erlendum uppruna og starfsmanna með skerta starfsgetu. Þá hafi fyrirtæki jafnframt lagt af stað í vegferð sem kallast Jafnrétti fyrir alla - Samkaup alla leið og hefur gert samstarfssamninga við þrjú samtök sem starfa í þágu hópa innan starfsmanna félagsins, en það eru Samtökin '78, Þroskahjálp og Mirra, rannsóknar- og fræðslusetur fyrir erlent starfsfólk. 

Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Samkaupa segir verðlaunin veita fyrirtækinu frekari hvatningu til að halda áfram í sömu vegferð. „Við erum hvergi nærri hætt og erum sífellt að setja fram aðgerðir sem vinna í átt að jafnara samfélagi og jafnari stöðu allra starfsmanna", segir Gunnur.

Hlutu verðlaun á sviði kynjajafnréttis

Dómnefnd segir að Vörður hafi unnið markvisst að jafnrétti innan fyrirtækisins undanfarin ár og hefur félagið hlotið 10 af 10 mögulegum á GemmaQ kynjakvarðanum. Vörður hafi lagt sig fram við að fá vottanir og innleitt hugbúnaðarlausnir sem stuðla að auknu jafnrétti. Félagið hefur auk þess sett sér metnaðarfull markmið í jafnréttismálum til framtíðar.

Harpa Víðisdóttir, mannauðsstjóri Varðar, segir verðlaunin ótrúlega hvatningu og segir félagið hvergi nærri hætt. „Við höldum áfram veginn ötul. Það er fullt af tækifærum", segir Harpa.