*

miðvikudagur, 20. janúar 2021
Innlent 10. ágúst 2020 12:34

Samkaup svarar fyrir verðhækkanir

Matvörukeðjan segir verðlag alltaf hafa lækkað þegar félagið hefur tekið yfir rekstur landsbyggðarverslana.

Ritstjórn
Kjörbúðin er meðal annars rekin á Blönduósi.
Aðsend mynd

Matvöruverslunarkeðjan Samkaup, sem rekur um 60 verslanir bæði undir eigin nafni, sem og vörumerkjunum Nettó, Kjörbúðin og Krambúðin, svara ásakanir um verðhækkanir í kjölfar nafnabreytinga á verslun félagsins í Reykjahlíð á Mývatni í tilkynningu sem félagið hefur sent frá sér.

Jafnframt segir félagið að verðlag hafi iðulega lækkað um allt að 15 til 30% þegar það hafi tekið yfir litlar landsbyggðarverslanir.

Segja verðþróun Smjörva ýmist 15% til hækkunar eða lækkunar

Bæði Fréttablaðið fyrir helgi og þar áður RÚV hafa fjallað um nafnabreytinguna úr Kjörbúðin í Krambúðin (vel að merkja hafa báðar keðjunar sama græna einkennislitin og mjög svipuð merki) í einu matvörubúðinni í Mývatnssveit, og þær verðhækkanir sem þar eiga að hafa átt sér stað samhliða.

Í eldri fréttinni er haft eftir sveitarstjóra Skútustaðahrepps að boðu meðaltalshækkun verðlags í versluninni nemi 7,7%, en fyrir helgi skiluðu 300 Mývetningar áskorun til Samkaupa um að endurskoða ákvörðunina um breytinguna á rekstrarforminu.

Kom áskorunin í kjölfar bréfs sem gekk um sveitarfélagið þar sem tekin voru dæmi um verðhækkanir í kjölfar breytingarinnar sem Samkaup segir nú ekki vera í neinum takti við breytingar félagsins á verðstefnu verslunarinnar með nafnabreytingunni.

Þar var talað um verðhækkun frá 15 upp í nærri 18% á brauði, skyri og mjólk sem og vöruskorti á þessum vörum svo margir Mývetningar hafi tekið á það ráð að keyra 54 kílómetra til Húsavíkur til að versla.

Samkaup segir þvert á móti að Smjörvi hafi lækkað um sama hlutfall og Mývetningar segi hann hafa hækkað í verði, eða um 15%, og nefna önnur dæmi um vörur sem hafi lækkað töluvert, þó tekið sé fram að það sé verðlækkun innan vörumerkisins Krambúðarinnar. Jafnframt viðurkennir félagið að einnig hafi orðið hækkanir, en þó ekki umfram hækkanir birgja.

Breyting í Kjörbúð fyrir þremur árum ekki skilað því sem vonast var eftir

Samkaup segir í tilkynningunni að fyrst hafi rekstrarformi verslunarinnar verið breytt í Kjörbúð í lok árs 2017, en sú breyting hafi ekki styrkt reksturinn eins og vonast var eftir.

Verslunin í Reykjahlíð hafi í gegnum árin treyst mjög á viðskipti erlendra ferðamanna. Með kórónuveirufaraldrinum  hafi rekstargrundvöllur hennar sem og margra annarra verslana Samkaupa hins vegar gjörbreyst.

Í kjölfarið hafi síðan verið ráðist í margskonar aðgerðir um land allt til að treysta reksturinn inn í þann óvissutíma sem framundan er. Meðal annars hefur afgreiðslutíma verið breytt og aðhalds verið gætt í rekstri og í tveimur verslunum var breytt um rekstrarform.

Í millifyrisögn tilkynningar félagsins segir að álagning ekki hafa aukist hjá Samkaupum og síðan segir:

„Sú breytta verðstefna sem varð með tilfærslu úr Kjörbúð í Krambúð er ekki í neinum takti við þau dæmi sem nefnd eru í frétt í Fréttblaðsins. Verð á markaði er síbreytilegt og það er alltaf hægt að finna sveiflur í verði, bæði til hækkunar og lækkunar.

Ýmsar vörur hafa hækkað í verði síðustu mánuði en fjöldinn allur af vörum hefur einnig lækkað. Í Krambúðinni hefur Smjörvi lækkað um 13,8%, Gevalia kaffi um 13%, Heimilisbrauð um 15% og Flórídana appelsínusafi um 18,2%, svo einhver dæmi séu tekin.

Samkaup hafa ekki hækkað vöruverð í verslunum sínum síðustu tólf mánuði umfram þær hækkanir sem orðið hafa hjá birgjum. Frá áramótum hafa birgjar tilkynnt um 200 verðhækkanir, frá 2 – 10%.

Mjólk hækkaði sem dæmi um 5,5% fyrir nokkrum vikum og er þetta í annað sinn á árinu sem Mjólkusamsalan hækkar verð hjá sér. Innkaupsverð á Smjörva hefur til að mynda hækkað um tæplega 9% frá áramótum. 

Samkaup hafa eftir fremsta megni reynt að mæta hækkunum frá birgjum með aðhaldi í rekstri og hefur álagning í verslunum fyrirtækisins ekki aukist á milli ára. 

Verðlag ávallt lækkað 

Samkaup reka rúmlega 60 dagvöruverslanir um allt land - verslanir sem spanna allt frá smáum hverfis- og landsbyggðarverslunum til stórra lágvöruverslana í stærstu byggðalögum.

Í þeim tilfellum þar sem Samkaup hafa yfirtekið rekstur landsbyggðarverslana hefur verðlag ávallt lækkað, um 15-30%, og jafnframt hefur félagið styrkt umgjörð verslana sinna með verulegum fjárfestingum.

Samkaup líta svo á að samfélagsleg ábyrgð fyrirtækisins snúi meðal annars að því að halda úti verslun úti um allt land og tryggja störf. Í Krambúðinni í Reykjahlíð starfa nú í sumar um 12 manns.  Samkaup leggja áherslu á samfélagslega ábyrgð í allri starfsemi sinni sem endurspeglar metnað fyrirtækisins í að vera traustur og virkur þátttakandi í samfélaginu.

Samkaup hafa lagt sig fram um að sinna hlutverki sínu af ábyrgð, tryggja neytendum hagstætt vöruverð og á sama tíma að tryggja rekstrarlegan grundvöll verslana sinna. Hér eftir sem hingað til mun starfsfólk Samkaupa leggja sig fram í því verkefni.“