Fjölgun ferða til rótgrónustu áfangastaðanna hefur verið mikil í áætlunarflugi til og frá Íslandi, með tilkomu fleirri flugfélaga og aukinna ferða íslensku flugfélaganna. Þurfa íslensku félögin að keppa við flugfélög á leiðum sem þau hafa áður setið ein að, eins og nú frá SAS á flugleiðinni milli Íslands og Kaupmannahafnar.

Aukningin mest 80% til Minneapolis

Var aukningin í flugi til Parísar og Kaupmannahafnar yfir 40% milli ára, en Icelandair hóf að fljúga til Orly flugvallar í París sem og fransk-hollenska flugfélagið Transavia hóf að fljúga fyrr hingað til lands en áður yfir sumartímann. Því er París komin í fjórða sæti yfir þær borgir sem oftast er flogið til frá Íslandi en var í því sjötta fyrir ári.

Mun meiri aukning var þó til Minneapolis, eða um 80%, þar sem Icelandair flýgur nú oftar auk þess sem flugfélagið Delta flýgur þaðan einnig. En aukningin er einnig umtalsverð til Amsterdam eða yfir 70%, með tilkomu flugferða Wow Air.

London trónir þó á toppnum yfir þær borgir sem oftast er flogið til en hægt er að skoða lista yfir þær borgir sem oftast var flogið til í maí og aukninguna milli ára á vefnum Túristi .