Tollstjóri hefur veitt fyrirtækinu Tax Free Viking ehf. formlegt leyfi til endurgreiðslu á virðisaukaskatti til aðila búsettra erlendis.

Samhliða því var ritað undir samning af hálfu félagsins við Arion banka sem annast mun endurgreiðslur til ferðamanna í Flugstöð Leifs Eiríkssonar fyrir hönd þess.

Áratugalangri einokun lokið

Þorgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóri Tax Free, segir stórt skref stigið með þessum samningi enda sé nú áratugalangri einokun tveggja aðila á markaðnum rofin:

“Síðustu 20 ár eða svo hafa hér verið ráðandi stórir aðilar sem séð hafa um endurgreiðslur virðisaukaskatts til erlendra ferðamanna en báðir eru þeir í eigu erlendra stórfyrirtækja,” segir Þorgeir í fréttatilkynningu frá félaginu. Vísar hann þar til Global Blue og Premier Tax Free sem starfa víða um heim og bætir við:

“Tax Free Viking er í 100% eigu íslenskra aðila og ríkir gegnsæi í eignarhaldinu. Við teljum að þar sem um endurgreiðslur á skattfé landsmanna sé að ræða sé ótækt að hlutdeild í því renni alfarið úr landi eins og nú er.”

Endurgreiðsluþóknun renni til verslana

Eigendur Tax Free Viking ehf. Eru Þorgeir Þorgeirsson, héraðsdómslögmaður, og Vignir Már Lýðsson hagfræðingur.

Þorgeir segir að nálgun Tax Free Viking verði með þeim hætti að bjóða verslunum betri kjör á endurgreiðsluþóknunum. Þegar ferðamaður fær endurgreiddan virðisaukaskatt rennur hluti endurgreiðslunnar til Tax Free Viking og annarra endurgreiðsluaðila en stefna fyrirtækisins er að verslunareigendur fái að lágmarki 50% af hverri endurgreiðsluþóknun.

“Við viljum þannig bæði efla íslenska kaupmenn sem og ýta undir verslun erlendra ferðamanna sem gæti átt erfitt uppdráttar á næsta ári með mikilli styrkingu krónunnar.”