Samtök tölvuleikjaframleiðenda á Íslandi - Icelandic Gaming Industry - eru vaxandi samtök enda er tölvuleikjaframleiðsla á Íslandi í örum vexti. Samtökin eru að hefja sína fyrstu árlegu samkeppni í hönnun og gerð tölvuleikja, IGI Awards sem fram fara í apríl 2010. Þetta er keppni opin öllum og kostar þátttaka ekkert. Samtökin bjóða upp á ókeypis mánaðarlegar kynningar á helstu grunnatriðum tölvuleikjagerðar, til að gera keppnina sem aðgengilegasta.

„Með þessari keppni getum við vonandi kynnt þennan mannaflsfreka iðnað fyrir sem flestum og hjálpað þeim sem vilja að komast af stað innan hans. Einnig eru verðlaun keppninnar ekki síst hugsuð til að styðja sigurvegarann í að fullvinna sína hugmynd og jafnvel stofna nýtt sprotafyrirtæki í kringum hana," segja aðstandendur keppninnar í frétt á vef SA.